09.12.2016 08:30

Bréfamaraþon Amnesty á Kópaskeri

Bréfamaraþon Anmesty International árið 2016 verður haldið í Skerjakollu – Búðinni á Skerinu í dag,
föstudaginn 9. desember og föstudaginn 16. desember, frá 14:00 – 19:00.

Fólki gefst kostur á að skrifa undir tilbúin aðgerðakort sem varða tólf einstaklinga og hópa sem sætt hafa grófum mannréttindabrotum víða um heim og þrýsta á stjórnvöld í viðkomandi landi að gera úrbætur.

Bréfaskrifin bera árangur því á hverju ári eiga sér stað raunverulegar breytingar á lífi þolenda mannréttindabrota. Fólk sem er ranglega fangelsað er leyst úr haldi. Pyndarar eru látnir svara til saka og fólk í fangelsum fær mannúðlegri meðferð.

Það kann að vera auðvelt fyrir stjórnvöld að hunsa eitt bréf en þegar milljónir slíkra bréfa berast er erfitt að líta undan. 

Bréfin bera árangur. Bréfin bjarga lífi.

 

08.12.2016 14:50

Kóræfing í kvöld - allir velkomnir!

Nú líður að jólum og ekki seinna vænna að huga að kórstarfinu á Kópaskeri.
Stefanía Sigurgeirsdóttir mun sjá um jólamessuna í Snartarstaðakirkju á 2. í jólum. og leiða okkur á aðventukvöldi um miðjan mánuðinn. 
Fyrsta æfing er í kvöld, 8.desember í Skólahúsinu kl. 20:00. 
Allir áhugasamir velkomnir!

08.12.2016 11:39

Velferðarsjóðurinn Von

Velferðarsjóðurinn Von styrkir fyrir jólin fjölskyldur og einstaklinga í Norður-Þingeyjarsýslu, sem eiga í erfiðleikum með að ná endum saman.

Stjórn sjóðsins skipa einstaklingar frá Heilsugæslunni, RKÍ og kirkjunni, sem nú um stundir eru Ragnhildur Þorgeirsdóttir, Raufarhöfn, Guðrún Margrét Einarsdóttir, Húsavík og Jón Ármann Gíslason, Skinnastað.

Hægt er að sækja um aðstoð með því að hafa samband við einhvern úr stjórn eða senda tölvupóst á skinnast@gmail.com. Algjör trúnaður. Umsóknarfrestur fyrir jól er til 16. desember.

Þá eru framlög til sjóðsins vel þegin. Leggja má inn á eftirfarandi reikning: 0192-26-30411, kt: 590269-6119

Með kveðju og ósk um gleðileg jól, 
sjóðsstjórn

26.11.2016 17:01

Vinnufundir um fræðslu og miðlun í Vatnajökulsþjóðgarði

Næstkomandi fimmtudag, 1. desember, ætlum við að gera aðra tilraun til að halda vinnufund um fræðslu í Vatnajökulsþjóðgarði. Á fundunum langar okkur að ræða markmið þjóðgarðsins í fræðslustarfi, velta fyrir okkur helstu viðfangsefnum fræðslunnar, greina möguleika á samstarfi og draga fram sérstöðu norðursvæðisins, ekki síst Jökulsárgljúfra.

Sem fyrr segir er fundurinn þann 1. desember, nánar tiltekið kl. 15:30 í Gljúfrastofu, Ásbyrgi. Hann er opinn öllum áhugasömum og er áætlað að fundurinn standi í um 2½ klst. Kaffiveitingar verða á boðstólum. 

Vinsamlegast tilkynnið þátttöku á netfangið gudmundur@vjp.is eða í síma 842 4360, í síðasta lagi þremur tímum áður en fundur hefst (svo það sé nú örugglega nóg með kaffinu!). Eins viljum við hvetja ykkur til að hafa samband ef einhverjar spurningar vakna.

Fyrir hönd starfshóps um gerð fræðsluáætlunar Vatnajökulsþjóðgarðs,
Guðmundur Ögmundsson (842 4360)

PS. Þeir sem voru búnir að skrá sig á fyrri fundinn eru beðnir um að skrá sig aftur hyggist þeir koma.

23.11.2016 13:16

Leikhópurinn Hrafnstjarna- Kópasker 26.11.2016

FRÉTTATILKYNNING

Leikhópurinn Hrafnstjarna sýnir leikritið Þingeyingur! - Glænýtt gamanverk í einum
þætti unnið uppúr ,,Sönnum lygasögum Þingeyinga” sem Jóhannes Sigurjónsson tók
saman.

Þrír ungir leikarar, leikstjórar og þingeyingar mynda leikhópinn Hrafnstjarna sem að
setur upp sýninguna Þingeyingur! í lok nóvember, víða um Þingeyjarsýslur, í samvinnu
við Aftur heim. Jenný Lára sér um leikstjórn, Vala Fannell um framleiðslu og Hjalti
Rúnar um leik. Þau eru öll ættuð frá Hömrum í Reykjadal í Suður-Þingeyjarsýslu og
þau hafa undanfarin misseri unnið að sýningu sem að kannar hvað það þýðir að vera
Þingeyingur. Þar sem þeir eru þekktir fyrir ástríðu, ósérhlífni, skopskyn og stolt
er mikilvægt að spyrja; hvað er satt og hverju er logið þegar kemur að þessum
höfuðpaurum norðurlandsins?

Verkið einkennist af léttu skopi, söng og gleði og leikhópurinn hlakkar til að færa
öðrum Þingeyingum sjálfa sig á góðlátlegu skemmtifati í lok nóvember.

Aftur heim er þróunarverkefni sem hefur það að markmiði að efla tengsl við
brottflutta unga listamenn úr Þingeyjarsýslum. Umsækjendur geta verið einstaklingar
á aldrinum 20-35 ára, eiga rætur í Þingeyjarsýslu sem stunda eða hafa lokið listnámi
sem lýkur með formlegri prófgráðu. Markmiðið með verkefninu er að gefa þeim tækifæri
til að snúa aftur heim til að framkvæma eða taka þátt í menningarverkefnum í
heimabyggð.

Sýningarstaðir og tímar eru eftirfarandi:

Samkomuhúsið á Húsavík
Föstudaginn 25. Nóvember kl.20:00

Skólahúsið á Kópaskeri
Laugardaginn 26. Nóvember kl. 14:00

Breiðamýri í Þingeyjarsveit
Laugardaginn 26. Nóvember kl. 20:00

Skjólbrekka í Mývatnssveit

Sunnudaginn 27. Nóvember kl. 20:00


Frekari upplýsingar um verkið, hópinn og miðapantanir má finna á
facebook.com/hrafnstjarna <http://facebook.com/hrafnstjarna>

16.11.2016 20:15

Fundi frestað

Vinnufundir um fræðslu og miðlun í Vatnajökulsþjóðgarði

Nú virðist nokkuð öruggt að lítið eða ekkert ferðaveður verður á morgun og því ekki um annað að ræða en að fresta fundinum sem stefnt var að. Því miður tekst okkur ekki að halda hann í næstu viku, en við setjum stefnuna á vikuna þar á eftir, þ.e. vikuna í kringum mánaðamótin nóvember/desember. Tilkynning um nýjan fundartíma verður send út í næstu viku.

Þrátt fyrir að við ráðum litlu um veðrið þá viljum við biðjast velvirðingar á frestuninni, sérstaklega þá sem höfðu gert ráðstafanir til að komast.

Fyrir hönd vinnuhópsins,
Guðmundur

15.11.2016 12:26

Opinn fundur Framfarafélagsins í kvöld

Framfarafélag Öxarfjarðar auglýsir opinn fund í kvöld, þriðjudaginn 15. nóvember klukkan 19:30 í Grunnskólanum í Lundi.

Dagskrá
Undirbúningur aðalfundar 
Hverfisráð
Sólstöðuhátíð 2017 og fyrirtækjadagur
Staða Öxarfjarðar í sókn
Íbúaflótti/ Íbúðalánasjóður og aðrar opinberar stofnanir
Ferðamannastaðir- uppbygging
Önnur mál

Allir sem vettlingi geta valdið hvattir til að mæta og leggja sitt af mörkum að efla Öxarfjarðarhérað. Kaffi á könnunni.

Kveðja, stjórnin

  • 1